Tvær öflugar sprengingar urðu í gaskútum í nýbyggingu á fimmta tímanum í dag. Nokkur eldur braust út og allt tiltækt slökkvilið var kallað út. Annar gaskútanna þeyttist á bifreið og stórskemmdi hana mjög. Hinn skaust tugi metra og mjóu mátti muna að kúturinn hafi hæft gangandi vegfaranda. Slökkvistarfi er nú lokið á vettvangi.
„Fimm mínútum seinna þá kemur hin sprengingin sem mér var eiginlega verri finnst mér. Þremur eða fjórum mínútum eftir að ég hringdi þá kom slökkviliðið, allt tiltekið lið, á staðinn. Maður fær eiginlega bara svona í hjartað, yfir því hvort einhver hafi verið uppi á plötunni, hvort einhver hafi verið að vinna við þetta – að bræða pappann. En sjónarvottar hafa sagt að ekkert hafi komið fyrir, það voru allir komnir niður,“ segir Yngvi Snær.
Mikil mildi var að engan sakaði, að sögn Guðmundar Guðjónssonar varðstjóra slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins.
„Seinni partinn í dag fáum við tilkynningu frá vegfarendum í 112 þar sem tilkynnt er um eld á þaki í nýbyggingu og við sáum strax á leiðinni að svartan reyk stíga upp. Þegar við erum um það bil hálfnaðir hingað þá fáum við tilkynningu um að það hafi orðið sprenging. Og svo þegar við erum rétt að lenda á vettvangi þá verður önnur sprenging og gaskúturinn fer í raun og veru fram hjá slökkvibílnum og munaði minnstu að hann hefði lent á fólki. Þannig að það skapaðist gríðarleg hætta hérna þegar þessir gaskútar sprungu.“

Guðmundur segir að fleiri gaskútar hafi verið á þakinu. Slökkviliðið hafi því strax hafist handa við að fara upp á þak og kæla kútana sem þar voru.
„Slökkvistarfi er lokið, það var í raun og veru ekki mikill eldur í byggingunni heldur logaði bara í þakpappa. Það gekk vel að ráða niðurlögum eldsins. Við erum bara búnir að vera núna síðasta einn og hálfan tímann að slökkva í glóð sem reynist í einangrun. En slökkvistarfi er að mestu leyti lokið,“ segir Guðmundur