Rannveig Lára Sigurbjörnsdóttir var á göngu með fjölskyldu sinni austan við Markarfljót þegar hún rambaði á dauða kú í fjörunni. Rannveig vissi ekki alveg hvert hún átti að snúa sér svo hún hringdi í skrifstofu lögreglunnar á Suðurlandi en fékk ekkert svar og hafði því samband við fréttastofu Vísis.

Þessi kýrfundur er sérstaklega óvenjulegur fyrir þær sakir að daginn áður fundust tvö hræ af kúm á Ásólfsskálafjöru undir Eyjafjöllum. Báðar staðsetningar eru því innan marka Rangárþings eystra. Þar var búið að taka úr eyrnamerkingar kúnna svo ekki var hægt að rekja hver eiganda þeirra var.
Kýrin sem fannst í gær er því nokkuð vestar en hinar tvær og er sömuleiðis ólík þeim að því leyti að hún er enn með eyrnamerkingarnar. Það ætti því að vera hægt að finna út hvaða bóndi á kúna.
Allt of algengt að bændur fargi hræjum þar sem þeim sýnist
Fréttastofa hafði samband við Jarle Reiersen, héraðsdýralækni í Suðausturumdæmi. Jarle var staddur erlendis í fríi og hafði því ekki fengið þessi mál inn á sitt borð. Hann sagði þó að það væri ljóst að þetta væri mál sem þyrfti að skoða enda ekki eðlilegt að dauðar kýr finnist með þessum hætti, hvað þá svona margar og án eyrnamerkingar.

Einnig er ljóst að þetta er verklag sem sé ekki samkvæmt reglunum af því „það þarf að farga hræi á viðurkenndum stöðum,“ sagði Jarle.
„Ef maður finnur mörg sjálfdauð dýr dettur manni strax í hug smitsjúkdómar. En mér finnst það alveg útilokað að það sé eitthvað svoleiðis á þessum árstíma. Það eru ekki margir nautgripir sem eru útigangandi núna, þó eitthvað um ungviði,“ bætti hann við.
Líklegra væri um að ræða dýr sem hafi drepist eða verið skotið heima í fjósi og síðan verið skilið eftir. Það sé kostnaðarsamt að farga dýrum og það sé alltof algengt að bændur fargi hræjum þar sem þeim sýnist.