Breiðablik heimsótti Lengjudeildarlið Fjölnis og vann 2-0 útisigur í Grafarvogi. Oliver Sigurjónsson braut ísinn strax á 17. mínútu og hinn efnilegi Ágúst Orri Þorsteinsson tvöfaldaði forystuna eftir klukkustund. Þar við sat, lokatölur 0-2 í Grafarvogi.
Þá stóð Óskar Hrafn Þorvaldsson við byrjunarliðið sem hann birti á Twitter í aðdraganda leiksins.
KR fékk 2. deildarlið Þrótt Vogum í heimsókn. Staðan var markalaus í hálfleik en Kennie Chopart og Olav Öby skoruðu snemma í síðari hálfleik áður en Hreinn Ingi Örnólfsson varð fyrir því óláni að skora sjálfsmark, lokatölur 3-0.
Alls voru sex leikmenn í byrjunarliði KR fæddir 2000 eða síðar. Þá kom Jón Arnar Sigurðsson, drengur fæddur árið 2007, inn af bekknum.
Á Akureyri vann KA þægilegan 5-0 sigur á 5. deildarliði Uppsveita. Pætur Petersen skoraði tvö, Dusan Brkovic skoraði tvö og Sveinn Margeir Hauksson bætti fimmta markinu við.
Að endingu vann Leiknir Reykjavík 1-0 sigur á Selfoss í Lengjudeildarslag. Omar Sowe skoraði eina mark leiksins á 89. mínútu.
Markaskorarar fengnir af Fótbolti.net.