Eins og allir vita þá kom upp riða á tveimur bæjum í Miðfirði í Vestur Húnavatnssýslu og er búið að farga öllu fénu, um fjórtán hundruð fjár. Það gekk vel með féð frá Bergsstöðum en það var brennt í Kölku á Suðurnesjum en það var meira vesen með féð frá Syðri – Urriðaá vegna urðunar þess eins og formaður Bændasamtakanna, Gunnar Þorgeirsson, þekkir.
„Þetta er allt mjög óheppilegt og ég held að allt of margt hafi klikkað, sem átti alls ekki að klikka,“ segir Gunnar og bætir við.
“Ég hef nú, sem fyrrverandi sveitarstjórnarmaður alltaf haft þá skoðun að færanlegur brennslubúnaður eigi að vera til í landinu til að bregðast við svona áföllum og ég held að það sé orðið mjög brýnt mál að leysa.“
Maður heyrir að margir bændur eru mjög ósáttir við allar þessar aðgerðir. Hvað segir þú um það?

„Já, já, auðvitað verða menn svolítið ósáttir þegar þetta kemur upp. Þetta gerist hjá mér allt í einu, þá er þetta svolítið erfitt en enn og aftur þá er þetta gert á grundvelli þeirra laga og reglugerða , sem eru í gildi í dag en ég held að það sé alveg tilvalið að taka samtalið við ráðuneytið hvort það eru einhverjar aðrar lausnir í málinu heldur en þessi vegferð,“ segir Gunnar.
Hvaða lausn gæti það verið?
„Það er nú kannski verið að horfa til sýnatöku úr sauðfé í stærri skala heldur en við höfum verið að gera og mun það gefa tilefni til þess að fara aðra vegferð heldur en svona vegferð,“ segir formaður Bændasamtakanna.