Við greindum frá því í kvöldfréttum okkar í gær að brotið hefði verið gegn níu ára barni , sem var gegn vilja sínum flutt í svokallað einveruherbergi í skóla í Hafnarfirði. Samkvæmt úrskurði mennta- og barnamálaráðuneytisins var atvikið barninu, sem er greint með ADHD, mjög þungbært.
Sigrún Júlíusdóttir prófessor emerita og klínískur félagsráðgjafi dregur alvarlega í efa úrræði eins og einveruherbergi, sem feli í sér ofbeldi og niðurlægingu. Þau stríði á móti öllum viðteknum hugmyndum um framkomu í garð fólks, sérstaklega barna.
„Þetta getur kannski til lengri tíma haft þau áhrif að barn fær skerta sjálfsvirðingu en umfram allt missir það trú á aðrar manneskjur og getur ekki treyst. Það er þá þar af leiðandi afar illa í stakk búið til að fara út í lífið. Bæði félagslega og ekki síst tilfinningalega,“ segir Sigrún.
„Við kunnum að tala við börn“
Eins og Sigrún hefur komið inn á í skrifum sínum er ráðuneytið með í vinnslu leiðbeinandi verklagsreglur um einveruherbergi. Afstaða ráðuneytisins er sú að ekki eigi að banna herbergin alfarið.
„Ég hef áhyggjur af því, vegna þess að mér finnst að það að beita einhverri tegund ofbeldis á aldrei rétt á sér. Og allra síst í faglegu samhengi vegna þess að þar eru önnur ráð. Við kunnum að tala við börn. Við kunnum að veita börnum þannig styrk og stuðning að þau þurfi ekki að umturnast.“
Sigrún sat um tíma í vistheimilanefnd og segir að því miður séu mörg dæmi um að ofbeldisaðferðum sé beitt. Vísbendingar séu um þróun til betri vegar.
„Umburðarlyndið [gagnvart ofbeldi], sem betur fer, er minna. Við látum ekki líðast, látum ekki viðgangast, að börn séu beitt slíkum aðferðum.“