Guðrún Aspelund, sóttvarnarlæknir, staðfestir í skriflegu svari til Vísis að afbrigðið hafi nú greinst hér á landi. Það hefur ekki hlotið formlegt nafn en hefur verið kallað latneska heitinu Arktúrus í erlendum fjölmiðlum.
Guðrún segir engar breytingar á veikindum eða einkennum fylgja afbrigðinu. Frásagnir af fjölgun augnsýkinga í Indlandi, meðal annars í börnum, fóru mikinn á samfélagsmiðlum í síðustu viku.
Veikindi ekki alvarlegri
Sóttvarnarlæknir segir augnsýkingar hafa verið og séu enn ein af mögulegum einkennum vegna sýkinga sem valda Covid-19. Gögn heilbrigðisyfirvalda bendi ekki til fjölgunar slíkra einkenna vegna X.B.1.16.
Afbrigðið á uppruna sinn í Indlandi og hefur breiðst hratt út að undanförnu, meðal annars í Bandaríkjunum. Þar má nú rekja 7,2 prósent smita til afbrigðsins.
Í skýrslu frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni um X.B.1.16 segir að það hafi nú greinst í 33 löndum. Gögn bendi ekki til þess að veikindi af völdum þess séu alvarlegri en áður.

