„Þannig er tryggt að samkomulag ríkis og borgar frá 2019 um að tryggja flug- og rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldi næstu 20-25 árin,“ segir í yfirlýsingunni, sem er meðal annars undirrituð af Einari Þorsteinssyni, oddvita Framsóknar í Reykjavík, og Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra og formanni flokksins.
Er því beint til borgarinnar að unnið sé eftir þeim ábendingum sem koma fram í niðurstöðu skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstaröryggi.
Fyrir neðan má lesa yfirlýsinguna í heild:
„Þingflokkur og sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar sátu kynningarfund varðandi niðurstöður skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug– og rekstraröryggi Reykjavíkurflugvallar.
Þingflokkur og sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar leggja áherslu á að Reykjavíkurflugvöllur sem skapar öryggi fyrir innanlands- og millilandaflug, mætir þörfum sjúkraflugs og er brúin á milli landsbyggðar og höfuðborgar verði áfram í Vatnsmýrinni, þar til annar jafngóður eða betri kostur finnst.
Hópurinn ítrekar afstöðu sína um að ekki muni rísa byggð í Vatnsmýrinni sem mun hafa áhrif á flug- og rekstraröryggi flugvallarins. Þannig er tryggt að samkomulag ríkis og borgar frá 2019 um að tryggja flug- og rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli haldi næstu 20-25 árin.
Því beina fulltrúar þingflokks og sveitarstjórna Framsóknar því til borgarinnar að unnið sé eftir þeim ábendingum sem koma fram í niðurstöðu skýrslu starfshóps um áhrif nýrrar byggðar í Skerjafirði á flug- og rekstraröryggi.
Undir þetta rita þingmenn og sveitarstjórnarfulltrúar Framsóknar.“