Krýningarathöfnin í Westminster Abbey var ákaflega íburðarmikil og stóð í um tvær klukkustundir. Karl byrjaði á því að sverja ensku biskupakirkjunni hollustu sína.
Síðar var komið að einum heilagasta hluta athafnarinnar; skermar voru bornir inn í kirkjuna og Karl smurður á bak við þá, fjarri augum viðstaddra og almennings - og öðlaðist þar með guðlega náð.
Það kom svo í hlut biskupsins af Kantaraborg að færa krýningarkórónuna, ómetanlegan dýrgrip frá árinu 1661, á höfuð Karls.
Kamilla drottning var einnig krýnd við öllu látlausari athöfn. Og að lokinni krýningu héldu konungshjónin til Buckingham-hallar, þar sem þau veifuðu þegnum sínum af svölum.
Forseti Íslands sem boðið var til Westminster í morgun segir krýningu Karls sögulega; aldrei hefur liðið lengra á milli krýningarathafna í Bretlandi. Sjötíu ár eru síðan Elísabet önnur var krýnd.
„Og þegar þegnar konungs sungu saman einum rómi Guð blessi konunginn, God save the king, þá áttaði maður sig kannski helst á mikilfengleik þessarar stundar,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Guðni segir að tíminn muni leiða í ljós hvernig Karli farnist í embætti. Konungurinn hafi sannarlega sett svip sinn á athöfnina í morgun.
„Karl vildi líka að önnur trúarbrögð fengju einnig, ef svo má segja, sitt pláss en auðvitað voru það hefðir og venjur sem mest bar á núna í Westminster. En við skulum sjá, við skulum óska honum góðs gengis, Karli þriðja konungi, og öllu hans fólki. Svo sjáum við hvað setur.“