La star du Paris Saint-Germain, Lionel Messi, jouera en Arabie saoudite la saison prochaine, a affirmé à l'#AFP une source saoudienne proche des négociations, qualifiant le contrat d'"énorme" 1/2 pic.twitter.com/ncLb21IXUW
— Agence France-Presse (@afpfr) May 9, 2023
Ef af félagaskiptunum verður munu Messi og Cristiano Ronaldo endurnýja kynnin í sádi-arabísku úrvalsdeildinni. Ronaldo hefur leikið með Al-Nassr frá áramótum.
Eiginkona Messis, Antonela, ku ekki vera spennt fyrir því að flytja til Sádi-Arabíu en það virðist ekki koma í veg fyrir að argentínski snillingurinn fari til Al-Hilal. Talið er að samningur Messis við Al-Hilal verði 522 milljóna punda virði og til tveggja ára, með möguleika á árs framlengingu.
Samningur Messis við PSG rennur út eftir tímabilið og hann hefur meðal annars verið orðaður við endurkomu til Barcelona. Katalóníufélagið á þó líklegast ekki efni á honum.
PSG setti Messi í tveggja vikna agabann á dögunum fyrir að ferðast í leyfisleysi til Sádí-Arabíu. Hann er sendiherra ferðamála fyrir Visit Saudi-Arabia.
Messi baðst seinna afsökunar á ferðalaginu til Sádí-Arabíu. „Ég var búinn að skipuleggja þessa ferð og gat ekki hætt við hana. Fyrir þetta hafði ég þurft að fresta henni einu sinni. Ég bið liðsfélaga mína afsökunar og bíð nú eftir því að sjá hvað félagið vill gera við mig,“ sagði Messi í afsökunarbeiðni sinni.
Forráðamenn PSG tóku hana góða og gilda og afléttu banninu. Messi getur því spilað næsta leik PSG sem er gegn Ajaccio á laugardaginn.
Messi gekk í raðir PSG frá Barcelona fyrir tveimur árum. Hann varð franskur meistari með liðinu á síðasta tímabili og líklegt er að það endurtaki leikinn í ár.