Yolanda Díaz, vinnumálaráðherra, greindi frá áformunum í dag. Ráðuneyti hennar segir að bannið næði meðal annars til götuþrifa og landbúnaðarstarfa.
„Við höfum þegar séð mörg dæmi, sannarlega mjög alvarleg, frá hreinsunarstörfum og sorphirðu þar sem starfsmenn hafa látist af völdum hitaslags,“ sagði Díaz.
Bannið er hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar vegna langvarandi þurrks sem herjar á stóran hluta Spánar. Árið í fyrra var það heitasta frá upphafi mælinga í landinu. Fyrstu fjórir mánuðir þessa árs eru jafnframt þeir þurrustu frá upphafi. Úrkoma hefur verið innan við helming af meðaltali árstímans.
Apríl var sá hlýjasti frá upphafi sömuleiðis, 4,7 gráðum yfir meðaltali mánaðarins. Úrkoma var um fimmtungur þess sem gerist í aprílmánuði í meðalári, að sögn AP-fréttastofunnar.
Fyrir vikið standa vatnsból víða lágt. Að meðaltali eru þau við um helmingsgetu. Í Andalúsíu á Suður-Spáni og í Katalóníu í norðaustri er ástandið enn verra. Þar eru vatnsból aðeins fjórðungsfull, að sögn Reuters-fréttastofunnar.
Díaz sagði að loftslagsbreytingar væru þegar farnar að hafa áhrif á líf fólks og við því þyrftu stjórnvöld að bregðast. Bráðabirgðarannsókn alþjóðlegs hóps vísindamanna sem birt var í síðustu viku komst að þeirri niðurstöðu að hitabylgjan á Spáni, Portúgal og Norður-Afríku í apríl hafi verið hundrað sinnum líklegri en ella vegna áhrifa manna á loftslagið. Slík hitabylgja hefði verið nær óhugsandi áður en til þeirra áhrifa kom.