Á vef Veðurstofunnar er tekið fram að vegfarendur ættu að kanna vel ástand vega og veðurspár áður en lagt sé af stað. Hiti verður í kringum frostmark á norðanverðu landinu, en allt að níu stigum syðst.
„Það er breytileg átt 5-13 m/s en norðaustan 8-15 norðvestanlands. Eftir hádegi verður lægðin gengin yfir landið og snýst þá í minnkandi norðlæga átt og styttir upp vestantil, en austantil í kvöld.“

Gular viðvaranir eru í gildi á Breiðafirði, Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi, Miðhálendi og Ströndum og Norðurlandi vestra vegna norðaustanhríðar, sums staðar fram á kvöld.
„Suðlæg átt 3-10 og yfirleitt bjart í fyrramálið en skýjað að mestu sunnantil. Suðaustan 8-13 og væta með köflum sunnan- og vestantil síðdegis. Hlýnandi veður, 6 til 11 stig seinnipartinn,“ segir um veðurspá morgundagsins.

Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á þriðjudag: Hægir vindar og bjartviðri til hádegis, en síðar suðaustan 8-13 m/s og fer að rigna, en þurrt að kalla á Norður- og Austurlandi. Hiti 3 til 10 stig, hlýjast á norðanlands.
Á miðvikudag: Suðlæg átt, 3-10 m/s, skýjað og lengst af þurrt en rigning eða súld með köflum suðvestanlands um kvöldið. Hiti 6 til 12 stig.
Á fimmtudag (uppstigningardagur): Sunnan og síðar suðvestan 8-15 m/s og rigning, en úrkomuminna norðaustanlands. Skúrir vestantil seinnipartinn. Hiti 7 til 14 stig, hlýjast á Norðausturlandi.
Á föstudag: Suðlæg átt og rigning, en lengst af þurrt norðaustantil. Hiti breytist lítið.
Á laugardag og sunnudag: Ákveðin suðvestanátt og skúrir, en yfirleitt bjart eystra. Hiti 5 til 12 stig, hlýjast á Norðausturlandi.