Skuldabréfin hjá Arion banka eru til þriggja ára og bera 7,25 prósent fasta vexti en í tilkynningu frá bankanum kemur fram að sterk eftirspurn hafi verið eftir bréfunum frá fjölbreyttum hópi fjárfesta. Í heild bárust tilboð fyrir rúmlega 600 milljónir evra frá yfir 70 fjárfestum frá meira en 15 löndum í Evrópu og Asíu.
Þetta er í fyrsta sinn sem fjárfestar frá asíu eru á meðal kaupenda að erlendum skuldabréfum bankanna frá fjármálahruninu, að því er Innherji kemst næst.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í viðtali við Global Capital fyrr á þessu ári, eins og Innherji hefur áður fjallað um, að reynsla síðustu mánaða hefði sýnt íslensku bönkunum að það væri mikilvægt fyrir þá að markaðssetja sig gagnvart breiðari hópi fjárfesta sem nái einnig til Bandaríkjanna og Asíu. Þeir hafi fram til þessa „reitt sig“ helst á skuldabréfafjárfesta í Evrópu.
Hlutabréfaverð Arion banka hefur lækkað um rúmlega 10 prósent frá áramótum, mun meira en Íslandsbanka sem er niður um eitt prósent á sama tíma.
Benedikt benti á að þangað til nýlega hefði verið nægt framboð af lánsfjármagni fyrir bankanna á erlendum mörkuðum. Hækkun vaxtaálagsins í vetur ætti hins vegar að vera áminning fyrir íslensku bankanna að fara að skoða það að reyna að ná til stærri og breiðari hóps fjárfesta.
Allir stóru bankarnir hafa núna á síðustu tveimur mánuðum ráðist í stórar evruútgáfur auk þess sem Kvika banki gaf út fyrir skemmstu skuldabréf í norskum og sænskum krónum fyrir jafnvirði um 11 milljarða íslenskra króna á 410 punkta álagi ofan á millibankavexti.
Landsbankinn gaf út sértryggð skuldabréf fyrir 300 milljónir evra í marsmánuði en Hreiðar Bjarnason, framkvæmdastjóri fjármála, hefur sagt að bankinn áformi að ráðast sömuleiðis í útgáfu á ótryggðum skuldabréfum á erlendum mörkuðum síðar á árinu.
Jón Guðni Ómarsson, framkvæmdastjóri fjármála hjá Íslandsbanka, sagði í lok síðustu viku í samtali við Innherja að bankinn hefði ákveðið að ráðast í skuldabréfaútgáfu erlendis, þrátt fyrir óhagfellda þróun á skuldabréfamarkaði, í því skyni að byggja upp trú erlendra fjárfesta á bréfum íslenskra banka og til að sýna varkárni á tímum sem litast af viðvarandi markaðssveiflum.
„Það var mikilvægt að sjá töluverða umframeftirspurn í útboðinu og vaxtaálag bréfanna lækka í kjölfarið á eftirmarkaði,“ sagði Jón Guðni.
Vaxtaálagið á útgáfur íslensku bankanna í erlendri mynt hækkaði verulega á eftirmarkaði á síðustu mánuðum ársins 2022 og fór hæst upp í um 500 punkta á evrubréf Íslandsbank í lok nóvember. Sú mikla hækkun sem varð á álaginu mátti einkum rekja til þess að stórir skuldabréfasjóðir sýndu bréfum bankanna lítinn áhuga. Vegna umróts á fjármálamörkuðum og ótta við innlausnir fjárfesta vildu þeir síður eiga skuldabréf lítilla banka sem búa ekki yfir sama seljanleika og bréf stærri banka.
Í byrjun árs hríðlækkaði vaxtaálagið þegar evrópskir skuldabréfamarkaðir tóku hressilega við sér og auk þess höfðu fulltrúar íslensku bankanna lagt kapp á að funda með erlendum fjárfestum og upplýsa þá um sterka stöðu bankakerfisins á Íslandi. Bankarnir eiga mikið undir því að vaxtaálagið þróist með hagfelldum hætti enda tekur verðlagning í skuldabréfaútgáfum, sem ræður útlánakjörum til heimila og fyrirtækja, yfirleitt mið af markaðsverði útistandandi bréfa.
Að okkar mati er er hætt við því að áhrif vaxtahækkana erlendis eigi enn eftir að skila sér að fullu og því verði viðvarandi sveiflur á erlendum mörkuðum og betra að sýna varkárni við slíkar aðstæður.
Fall banka í Bandaríkjunum og yfirtakan á Credit Suisse hafa hins vegar sett strik í reikninginn og aftur hefur umrótið ýktari áhrif á útgáfur íslensku bankana, sem eru tiltölulega smáar í evrópsku samhengi. Vaxtaálagið hefur nú hækkað verulega á ný, eins og kjörin í útgáfum Íslandsbanka og Arion banka gefa nú skýrt til kynna, en Jón Guðni segir útlit fyrir viðvarandi sveiflur á erlendum mörkuðum og því sé mikilvægt að sýna varkárni.
„Það eru skiptar skoðanir á því hvernig alþjóðlega efnahagsumhverfið mun þróast en að okkar mati er er hætt við því að áhrif vaxtahækkana erlendis eigi enn eftir að skila sér að fullu og því verði viðvarandi sveiflur á erlendum mörkuðum og betra að sýna varkárni við slíkar aðstæður.“