Fótbolti

Rice vilji fara til Arsenal þrátt fyrir áhuga frá öðrum stórliðum

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Declan Rice gæti gengið í raðir Arsenal í sumar.
Declan Rice gæti gengið í raðir Arsenal í sumar. David Price/Arsenal FC via Getty Images

Svo virðist sem Declan Rice, miðjumaður West Ham, vilji ganga í raðir Arsenal í sumar þrátt fyrir áhuga frá öðrum liðum á borð við Manchester United, Chelsea og Bayern München.

Hinn 24 ára gamli Rice hefur verið afar eftirsóttur biti undanfarin tímabil, en hingað til hefur hann haldið tryggð við West Ham. Nú greinir enski miðillinn The Mirror hins vegar frá því að Ricehafi ákveðið að hann vilji fara til Arsenal í sumar.

Búist er við því að West Ham leyfi Rice að fara frá félaginu ef lið sem mun leika í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili er tilbúið að greiða hundrað miljónir punda fyrir leikmanninn. Það samsvarar rúmum 17 milljörðum króna og myndi gera Rice að einum af dýrustu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar frá upphafi.

Eins og áður segir er Arsenal þó ekki eina liðið sem er á höttunum á eftir Rice. Lið á borð við Manchester United, Chelsea og Bayern München hafa einnig áhuga á því að tryggja sér þjónustu miðjumannsins, en hann virðist þó sjálfur vilja ganga í raðir Arsenal.

Rice hefur leikið 203 leiki fyrir West Ham í ensku úrvalsdeildinni og skorað í þeim tíu mörk. Þá á hann einnig að baki 41 leik fyrir enska landsliðið þar sem hann er fyrir löngu orðinn fastamaður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×