Í tilkynningu á vef Tækniskólans segir að Thelma Þorbjörg hafi tekið óvænta ákvörðun um að skrá sig í Skipstjórnarskólann þegar heimsfaraldur Covid-19 stóð sem hæst.
„Ég hafði ekki hugmynd um hvað ég var að fara út í, enda aldrei verið á sjó, en ég kolféll hins vegar fyrir fræðunum. Þar sem Covid var ekkert á leiðinni neitt ákvað ég að skrá mig í Skipstjórnarskólann um haustið og tók nokkur fög þá önnina. Þegar þarna var komið við sögu var hreinlega ekki aftur snúið. Ég hafði uppgötvað ástríðu fyrir sjómennsku,“ er haft eftir henni í tilkynningu.
Þá segir að Thelma Þorbjörg beri kennurum og stjórn skólans góða sögu. Hún verði kennurum sínum ævinlega þakklát, þeirra vegna hafi hún haft einstaklega gaman af náminu enda búi kennararnir yfir gríðarlegri reynslu og þekkingu á sínu sviði.
Thelma hafi mikinn áhuga á flutningaskipum og gæli við þá hugmynd að fara á sjóinn í framtíðinni og spyrji sig: „kannski enda ég einn daginn í brúnni hjá Eimskip, hver veit?“