Ráðstefnan var haldin í Háskólanum í Reykjavík í dag, í samstarfi við Háskólann á Akureyri, lögregluna á höfuðborgarsvæðinu, Fangelsismálastofnun og Barna- og fjölskyldustofu. Skipuleggjandi hennar segir ráðstefnuna öðrum þræði fjalla um kynferðisofbeldi gegn öllum börnum, þótt kastljósinu væri beint að drengjum.
„Drengir eru á margan hátt ósýnilegur hópur kynferðisofbeldis. Ég segi gjarnan að stúlkur séu hljóður hópur þolenda, en drengir eru þögull hópur þolenda,“ segir Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, sem stóð fyrir ráðstefnunni.
Markmið ráðstefnunnar væri að skoða hvað hægt væri að gera til að aflétta þögninni í kringum kynferðisbrot gegn drengjum.
„Hvernig getum við skapað samfélag þar sem þolendur, og í þessu tilviki drengir, sem stíga miklu, miklu sjaldnar fram, finni til öryggis til að segja frá áföllum og sársauka af þessu tagi.“
Aðstoð eftir afplánun
Á ráðstefnunni var einkum fjallað um þolendur og úrræði fyrir fyrir þá, en sjónum var einnig beint að gerendum og hvernig koma megi í veg fyrir að menn brjóti ítrekað af sér. Afbrotafræðingur segir slík úrræði til; það þurfi einfaldlega að beita þeim.
„Aðstoð meðan á afplánun stendur, meðferð og ýmiskonar ráðgjöf sem brotamönnum stendur til boða. En það er líka með aðstoð eftir að afplánun sleppir,“ segir Helgi Gunnlaugsson, prófessor í afbrotafræði við Háskóla Íslands.

Með slíkri eftirfylgni væri hægt að draga verulega úr líkunum á að menn brjóti af sér eftir að hafa lokið afplánun.
Heiftarleg viðbrögð samfélagsins við brotum sem þessum geti valdið því að þolendur veigri sér við að stíga fram, sér í lagi þegar þeir væru tengdir geranda.
„Það er þetta sem við þurfum að rjúfa, við þurfum að fá þessi brot upp á yfirborðið og við verðum að koma í veg fyrir brot af þessu tagi,“ segir Helgi.