Körfubolti

Tap í fyrsta leik hjá Elvari

Smári Jökull Jónsson skrifar
Elvar Már var nokkuð atkvæðamikill í liði Rytas í kvöld.
Elvar Már var nokkuð atkvæðamikill í liði Rytas í kvöld. Rytas

Elvar Már Friðriksson og félagar hans í Rytas biðu lægri hlut gegn Zalgiris Kaunas í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi þeirra um litháíska meistaratitilinn.

Liðin enduðu í tveimur efstu sætum deildakeppninnar, Kaunas í efsta sæti en Rytas í öðru, en Rytas fór í gegnum sitt undanúrslitaeinvígi án þess að tapa leik á meðan Kaunas vann 3-1 sigur á Lietkabelis í sínu einvígi.

Leikurinn í dag var jafn og spennandi. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 26-21 Kaunas í vil en gestirnir frá Rytas voru sterkir fram að hálfleik og að loknum fyrri hálfleik var staðan 46-46.

Jafnræðið hélt áfram eftir hlé. Liðin skiptust á að hafa forystuna en undir lok þriðja leikhluta náði Kaunas góðu áhlaupi og komst níu stigum yfir og svo sautján stigum yfir í upphafi fjórða leikhluta.

Þann mun náðu leikmenn Rytas ekki að brúa. Kaunas sigldi sigrinum þægilega í höfn og unnu að lokum fimmtán stiga sigur, lokatölur 108-93.

Elvar Már lék í rúmar tuttugu mínútur í leiknum. Hann skoraði 10 stig, gaf 8 stoðsendingar og tók tvö fráköst. Vinna þarf þrjá leiki í einvíginu til að hampa meistaratitlinum en liðin mætast næst á laugardag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×