Marc Macausland, fyrirliði Njarðvíkur, er sagður hafa kastað af sér þvagi á miðjum Olísvellinum, uppátæki sem fór skiljanlega ekki vel í heimamenn.
Leikur Vestra og Njarðvíkur var stöðvaður í kringum 22. mínútu í kjölfar meiðsla Joao Ananias, leikmanns Njarðvíkur.
Það var þá sem mátti sjá Marc, fyrirliða Njarðvíkur skokka af vellinum og út úr mynd í beinni útsendingu frá leiknum. Skömmu síðar mátti sjá annan af aðstoðardómurum leiksins horfa í áttina að honum og veifa í áttina að honum fingri.
Hann heldur þá aftur inn á völlinn og krýpur á kné við hlið nokkurra liðsfélaga sinna, ekki ýkja langt frá dómara leiksins.
„Hey dómari! Hann er að míga á völlinn,“ mátti heyra Davíð Smára, þjálfara Vestra, hrópa í áttina að dómara leiksins.
Aðstoðardómari leiksins, labbar þá í áttina að Davíð Smára sem svarar honum um leið og segir að dómarateymið verði að taka á þessu.
Kallað var eftir því úr stúkunni á Olísvellinum að umræddur leikmaður fengi spjald að launum fyrir athæfi sitt en svo varð ekki úr.
Davíð Smári ræddi atvikið í viðtali við Fótbolta.net eftir leik.
„Það sáu það allir og við vorum að benda dómaranum á það að leikmaður Njarðvíkur væri að hafa þvaglát á vellinum. Ég veit ekki hvernig þeir fóru að því að sjá það ekki, en svona er þetta bara.“
Umrætt atvik úr leik dagsins má sjá hér fyrir neðan: