Fótbolti

Barcelona tapaði í loka­um­­ferðinni og Valla­dolid féll

Smári Jökull Jónsson skrifar
Gabri Veiga skoraði fyrir Celta Vigo í dag.
Gabri Veiga skoraði fyrir Celta Vigo í dag. Vísir/Getty

Barcelona tapaði fyrir Celta Vigo í lokaumferð spænsku úrvalsdeildarinnar í dag. Real Valladolid er fallið niður í aðra deild.

Spænsku úrvalsdeildinni lauk í dag og var ljóst fyrr í kvöld að Real Madrid endaði í öðru sæti deildarinnar eftir æsispennandi slag við nágranna sína í Atletico. Barcelona var fyrir löngu búið að vinna meistaratitilinn og því lítil spenna fyrir leik liðsins gegn Celta Vigo nú í kvöld.

Gabri Veiga kom Celta Vigo yfir undir lok fyrri hálfleiks í leik liðanna í dag og bætti við öðru marki á 65. mínútu. Ungstirnið Ansu Fati minnkaði muninn fyrir Barcelona sem komst þó ekki lengra og Celta Vigo fór með sigur af hólmi 2-1. Þrátt fyrir tapið lauk Barcelona keppni með tíu stiga forystu í efsta sæti deildarinnar. 

Real Valladolid féll niður í næst efstu deild eftir að hafa gert 0-0 jafntefli við Getafe á heimavelli. Valladolid var með boltann 80% af leiktímanum í dag en tókst þó ekki að skora en sigur hefði dugað þeim til að halda sæti sínu á kostnað liðs Almeria sem gerði 3-3 jafntefli við Espanyol.

Fimm lið frá Spáni taka þátt í Meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð. Barcelona, Real Madrid, Atletico Madrid og Real Sociedad enduðu í fjórum efstu sætum deildakeppninnar og þá vann Sevilla sér sæti í Meistaradeildinni með því að vinna sigur í Evrópudeildinni á þessu tímabili.

Villareal og Real Betis unnu sér þátttökurétt í Evrópudeildinni og Osasuna verður fulltrúi Spánar í Sambandsdeildinni. Real Valladolid, Espanyol og Elche falla niður í næst efstu deild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×