Bændablaðið greindi fyrst frá aðalfundinum.
Ályktunin er sérstaklega áhugaverð í ljósi frétta sem berast af Alþingi. Þar ætla þingmenn ekki að framlengja undanþágu á tollum á innfluttum landbúnaðarafurðum frá Úkraínu vegna andstöðu nokkurra þingmanna. Undanþágan hefur verið ein helsta leið Íslendinga til að styðja við Úkraínu.
Fjöldi þingmanna steig upp í pontu til að lýsa yfir vonbrigðum sínum með niðurstöðuna, bæði stjórnarliðar og þingmenn stjórnarandstöðunnar. Þórdís Kolbrún og Guðlaugur Þór lýstu bæði yfir vilja sínum til að framlengja undanþáguna á meðan flokksbræður þeirra, Ásmundur Friðriksson og Birgir Þórarinsson, gerðu lítið úr vægi innflutningsins fyrir Úkraínu.
Áður höfðu Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, og þingmenn Viðreisnar sagt að þrýstingur frá hagsmunaöflum landbúnaðarins hafi komið í veg fyrir að undanþágan yrði framlengd.
Ísland eigi að framleiða sitt eigið kjöt og merkja það vel
Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri, sagði ályktun aðalfundarins vera skýr skilaboð um hvað Kaupfélagið og dótturfélög þess eigi að standa fyrir. Þá segir hann að stefna eigi að aukinni innlendri framleiðslu á kjötvörum.

„Ísland ætti að framleiða allar sínar kjötafurðir sjálft ef það mögulega getur, líkt og þekkist í Noregi þar sem hlutfall innlendrar framleiðslu er yfir 90 prósent. Við höfum landgæði, vatn og getu til meiri framleiðslu. En til að ná því markmiði þurfa stjórnvöld að koma að því með meiri stuðningi. Stuðningur við íslenskan landbúnað er hættulega lítill í samanburði við stuðning í Evrópu og afurðastöðvarnar geta ekki einar brúað það bil sem vantar upp á,“ hafði Bændablaðið eftir Sigurjóni.
Í samþykkt fundarins er því einnig beint til stjórnar að Kaupfélagið og dótturfélög þess selji ekki landbúnaðarvörur nema uppruni þeirra komi fram með skýrum hætti. Stjórn og stjórnendur samstæðufyrirtækja eigi að vinna í því að fá afurðir úr slátrun sinni vottaðar sem íslenskar af þriðja aðila.
Þá var í samþykkt aðalfundarins lögð áhersla á að stjórn KS og stjórnendur samstæðufélaga aðstoði sína innleggjendur þannig að starfsskilyrði þeirra verði sem best og að leitast verði við að greiða sem hæst skilaverð fyrir landbúnaðarafurðir til bænda.
„Hluti af því er að vinna áfram að því mikilvæga starfi að saman geti fyrirtækin í landbúnaði og bændur tekið saman höndum um að styrkja umgjörð íslensks landbúnaðar,“ segir í samþykktinni.