Alþjóðaknattspyrnusambandið FIFA greindi frá því í gær að yfir milljón miðar væru nú þegar seldir á mótið, en það hefst þann 20. júlí næstkomandi.
Gianni Infantino, forseti FIFA, sagði frá því að seldir miðar væru nákvæmlega 1.032.884 talsins. Það er því nú þegar búið að selja fleiri miða á mótið í ár en seldust á seinasta heimsmeistaramót sem var haldið í Frakklandi árið 2019.
Women’s World Cup to break records with more than one million tickets sold https://t.co/9CGgfhjBIp
— Guardian sport (@guardian_sport) June 8, 2023
„Konurnar eru framtíðin,“ sagði Infantino eftir að hann tilkynnti um hversu margir miðar væru seldir á mótið.
„Ég vil þakka aðdáendunum fyrir að styðja það sem mun verða besta heimsmeistaramót kvenna frá upphafi. Spennan í Ástralíu og Nýja-Sjálandi, sem og um heim allan, er að magnast og ég hlakka til að sjá ykkur þar og fylgjast með stjörnum kvennafótboltans skína á heimssviðinu.“
Þá hefur FIFA einnig gefið út að opnunarleikur Ástralíu og Írlands mun færast á Stadium Australia vegna mikillar eftirspurnar eftir miðum. Stadium Australia tekur 83.500 manns í sæti og er stærsti völlur mótsins.