Enski boltinn

Heimildirnar frá Katar byggðar á sandi og enn ó­víst hver eignast Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Manchester United er enn í leit að nýjum eiganda.
Manchester United er enn í leit að nýjum eiganda. Nathan Stirk/Getty Images

Í gær, þriðjudag, bárust fréttir þess efnis að allt væri klappað og klárt er kæmi að nýjum eiganda enska knattspyrnuliðsins Manchester United. Þær fréttir reyndust þvættingur.

Eins og umheimur – allavega þau sem fylgjast með íþróttum – veit er Man United til sölu. Kapphlaupið er á milli sjeiksins Jassim bin Hamad al-Thani og auðmannsins, og Íslandsvinarins, Jim Ratcliffe.

Á þriðjudag bárust fréttir þess efnis frá Katar að kaupin væru frágengin og Jassim yrði næsti eigandi félagsins. Svo öruggar hljómuðu fréttirnar að hlutabréfin í Man United ruku upp. Nú hefur verið staðfest að þær fregnir voru byggðar á sandi.

Fréttin sem birtist á Al-Watan, miðill sem er í eigu föður Jassim – sem er einnig fyrrverandi forsætisráðherra Katar, var byggð á tísti sem kom frá aðgang á Twitter sem hefur aðeins 250 fylgjendur. Það sem meira er, Twitter-aðgangurinn er í eigu einstaklings sem býr í Cardiff í Wales. Frá þessu er meðal annars greint á The Athletic sem og fleiri miðlum.

Sem stendur virðist þó enn nokkuð í að Man United fái nýja eigendur og mögulega verður það Jassim eftir allt saman. En eins og staðan er í dag er ekkert samkomulag í höfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×