Á vef Veðurstofunnar kemur fram að landris í Ólafsgígum, rétt vestan Öskjuvatns, nemur nú um 60 sentímetrum síðan það hófst í ágúst 2021. Samkvæmt líkanreikningum eru upptök aflögunarinnar á um 2,5 til 2,9 kílómetra dýpi undir Öskju og hefur staðsetningin verið óbreytt síðan í september fyrir tveimur árum síðan.
Frá lokum 2021 til miðjan júní 2023 hafa á bilinu 20 – 60 skjálftar, yfir 0,5 að stærð, mælst í Öskju í hverjum mánuði og skjálftavirkni verið frekar stöðug, að því er fram kemur á vef Veðurstofu.
Stærstu skjálftar hvers mánaðar hafa verið frá tæplega 2 að stærð upp í 3,1. Þegar landris var hraðast í september 2021 mældust nærri 150 jarðskjálftar í mánuði.
Að sögn Veðurstofu er Askja vöktuð með jarðskjálfta- og GPS mælingum ásamt gögnum úr gervitunglum. Á gervitunglamyndum sést að síðan í lok maí hefur yfirborð Öskjuvatns verið íslaust eins og önnur vötn á svæðinu.