Þar segir að Íslandsbanki hafi með sáttinni gengist við því að hafa gerst brotlegur við ákvæði laga um markaði fyrir fjármálagerninga og laga um fjármálafyrirtæki og ljóst sé að misbrestur á fylgni bankans við lög og reglur er til þess fallinn að rýra traust almennings til fjármálafyrirtækja.
Bankasýslan líti málið alvarlegum augum, en stofnunin fari enn með 42,5 prósent eignarhlut í Íslandsbanka og verulega hagsmuni ríkisins í öðrum fjármálafyrirtækjum.
„Bankasýsla ríkisins hefur ákveðið að fara fram á að boðað verði til hluthafafundar í Íslandsbanka þar sem stjórn og stjórnendur bankans geri grein fyrir málinu og þeim ráðstöfunum sem gripið verður til í því skyni að endurvekja traust,“ segir í tilkynningu.
Villtu um fyrir Bankasýslunni
Íslandsbanki veitti Bankasýslu ríkisins villandi upplýsingar um fyrirliggjandi tilboð í tilboðsbókinni sem lögð var fyrir Bankasýsluna að kvöldi 22. mars 2022 með því að upplýsa ekki um að almennir fjárfestar stæðu að baki tilboði eignastýringar málsaðila og að tilboðin hefðu verið lögð fram með sama hætti og tilboð viðskiptavina verðbréfamiðlunar og fyrirtækjaráðgjafar.
Þar af leiðandi fékk Bankasýslan ekki upplýsingar um nöfn þátttakenda og fjárhæð tilboða frá hverjum og einum þrátt fyrir að upplýsingar þess efnis lægju fyrir hjá bankanum.
Bankasýslu ríkisins voru einnig veittar villandi upplýsingar um flokkun þátttakenda í útboðinu þar sem níu viðskiptavinir bankans sem stóðu að baki tilboðum í tilboðsbókinni sem lögð var til grundvallar rökstuddu mati Bankasýslunnar til fjármála- og efnahagsráðherra voru ekki flokkaðir sem fagfjárfestar á því tímamarki.
Þá veitti bankinn viðskiptavinum eignastýringar rangar og villandi upplýsingar, gegn betri vitund, í níu tilfellum um að lágmarksfjárhæð tilboða í útboðinu væri tuttugu milljónir króna þegar ekki var um slíka skilmála að ræða.