„Mér fannst vera mikil barátta í þessum leik. Það var barátta á mörgum sviðum en ég er svekktur að hafa ekki unnið þennan leik,“ sagði Guðni Eiríksson eftir leik.
Guðni var svekktur að liðinu tækist ekki að nýta síðasta dauðafærið undir lok leiks þar sem Shaina Faiena Ashouri lét Írisi Dögg Gunnarsdóttur, markmann Þróttar, verja frá sér.
„Þetta var gott færi sem við fengum í lokin og það hefði verið frábært að skora en það gengur ekki alltaf. Ég er virkilega ánægður með frammistöðu leikmanna. Mér fannst baráttan og viljinn til fyrirmyndar.“
Fyrri hálfleikur var töluvert opnari í báða enda heldur en síðari hálfleikur. Báðir þjálfarar gerðu mikið af skiptingum í seinni hálfleik en það er ekki ólíkt FH að gera breytingar sama hvernig staðan er.
„Það gerist þegar við förum inn í síðari hálfleik. Ákefðin á það til að breytast en við hreyfum alltaf við liðinu okkar og þetta er bara svona,“ sagði Guðni Eiríksson að lokum.