Innlent

Veð­setningar­hlut­fallið 27 prósent og aldrei lægra í aldar­fjórðung

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Íbúar á landinu gætu orðið 400.000 fyrir árslok.
Íbúar á landinu gætu orðið 400.000 fyrir árslok. Vísir/Vilhelm

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,1 prósent í júní. Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins nam lækkunin um 2,1 prósent og annars staðar á landsbyggðinni um 0,5 prósent.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar en þar segir einnig að síðustu tólf mánuði hafi raunverð íbúða á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 5,7 prósent miðað við vísitölu neysluverðs.

„Í nágrenni höfuðborgarsvæðisins mælist nú raunverðslækkun á síðustu 12 mánuðum í fyrsta skipti síðan 2014. Annars staðar á landsbyggðinni hefur raunverð hækkað síðustu 12 mánuði en þar var hækkunin nokkuð minni á árunum 2020- 2022 en á höfuðborgarsvæðinu og í nágrenni þess,“ segir í skýrslunni.

Útgefnir kaupsamningar um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu voru 321 og hafa ekki verið færri frá 2011 ef leiðrétt er fyrir árstíðarbundnum sveiflum. Þá virðist hafa hægt meira á sölu nýrra íbúða en eldri en hlutfall þeirra var 9,9 prósent í maí miðað við þriggja mánaða meðaltal, samanborið við 15,5 prósent í maí í fyrra og 19,5 prósent í maí 2021.

„Samhliða hækkandi fasteignaverði hefur eiginfjárstaða heimila batnað og eru íbúðalán heimila nú um 27% af verðmæti fasteigna í þeirra eigu. Er þetta lægsta veðsetningarhlutfall sem mælst hefur í þann aldarfjórðung sem tölurnar ná til,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að ef fer sem horfir gætu íbúar landsins orðið 400.000 fyrir árslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×