Nú eru tíu dagar frá því Rússar sögðu sig frá samkomulagi sem tryggði örugga siglingu með korn og áburð frá Úkraínu um Svartahaf sem aðallega var futt til fátækari landa í Afríku og Asíu. Allt síðan þá hafa rússneskar hersveitir gert linnulausar eldflaugaárásir á útflutnngshafnir Úkraínu við Svartahaf til að eyðileggja innviði og kornuppskeru og hafa nú þegar náð að sprengja upp 60 þúsund tonn af korni.
Á sama tíma og Rússar standa í þessum árásum og koma í veg fyrir að Úkraína geti flutt út korn, flögrar einræðisherrann Vladimir Putin upp í fangið á leiðtogum Afríkuríkja sem hann hefur boðið til Pétursborgar til að ræða nýja heimsmynd sína. Í leiðinni lofar hann leiðtogunum að senda þeim frítt korn, sem hann hefur þó logið þegar honum hentar að Vesturlönd meini Rússum að flytja út.

Þetta er í annað sinn sem leiðtogar Afríku funda sameinglega með Rússum en fyrri fundurinn var haldinn árið 2019 og sótttu hann 43 leiðtogar Afríku. Í þetta skipti eru þeir hins vegar aðeins sautján.
„Við erum reiðubúnir að útvega eftirtöldum ríkjum: Búrkína Fasó, Simbabve, Malí, Sómalíu og Eritreu 25-50 þúsund tonn af korni án endurgjalds á næstu þremur eða fjórum mánuðum. Við munum einnig sjá um flutning þessara afurða til neytenda," sagði Putin í ávarpi til leiðtoganna sautján og uppskar mikið lófaklapp frá þeim.

Eftir að Vesturlönd lokuðu sambandi rússneskra banka við SWIFT millibankafærslukerfið er Putin í mun að koma á nýju kerfi í gegnum nýjan Þróunarbanka með Brasilíu, Indlandi, Kína og Suður-Afríku.
„Tengslin milli landa okkar, BRICS-landanna, eru í þróun og nýtt greiðslukerfi ríkjanna verður notað. Í þessu sambandi sýnist mér að nýi Þróunarbankinn geti gegnt mikilvægu hlutverki við lausn verkefna okkar," sagði Putin við Dilma Rousseff forstjóra nýja Þróunarbankans frammi fyrir rússneskum fjölmiðlum.

Á meðan Putin reynir að tæla sautján Afríkuríki til liðs við sig er útsendari hans, Sergei Shoigu varnarmálaráðherra, gestur einræðisherra Norður-Kóreu ásamt fulltrúum Kína til að minnast þess að 70 ár eru liðin frá vopnahléi í kóreustríðinu. Þar sýndi einræðisherrann Kim Jong Un rússneska stríðsherranum stoltur öll öflugustu vopnin sín, sem Rússar vilja gjarnan fá frá honum til notkunar í ólöglegri innrás í sjálfstæða Úkraínu.