Umfjöllun og viðtöl: Stjarnan - Tindastóll 2-1 | EM-farinn bjargaði Stjörnunni

Sindri Sverrisson skrifar
Stjörnukonur byrjuðu seinni hluta tímabilsins á sætum en torsóttum sigri.
Stjörnukonur byrjuðu seinni hluta tímabilsins á sætum en torsóttum sigri. vísir/anton

Sædís Rún Heiðarsdóttir, nýkomin heim af EM U19-landsliða, sá um að tryggja Stjörnunni 2-1 sigur gegn Tindastóli í Bestu deildinni í fótbolta í dag með sannkölluðu draumamarki.

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir kom Stjörnunni yfir eftir tuttugu mínútna leik, þegar hún skoraði eftir hornspyrnu, en Murielle Tiernan jafnaði metin fyrir Tindastól um miðjan seinni hálfleik.

Sædís sá hins vegar til þess að Stjarnan næði sigri, í þessum fyrsta leik liðsins eftir þriggja vikna hlé vegna EM, þegar hún smellti boltanum í hægra hornið með frábæru skoti utan teigs, nokkrum mínútum fyrir lok venjulegs leiktíma.

Með sigrinum komst Stjarnan fjær fallsvæðinu en liðið er með 18 stig í 6. sæti, fjórum stigum fyrir ofan Tindastól sem er enn tveimur stigum frá fallsæti.

Færi á færibandi í fyrri hálfleik

Það er með hreinustu ólíkindum að ekki skyldu skoruð fleiri en eitt mark í fyrri hálfleiknum á Samsung-vellinum í dag. Til þess fengu bæði lið svo sannarlega færi.

Stjarnan byrjaði leikinn af krafti, eftir þriggja vikna bið frá síðasta leik þar sem að þrír leikmenn Stjörnunnar voru á EM U19 ára. Reyndar vantaði enn einn leikmann í Stjörnuliðið vegna stórmóts, því Betsy Hassett er sem kunnugt er enn á HM hinum megin á hnettinum, með liði Nýja-Sjálands, og óvíst hvenær hún kemur heim.

Hulda Hrund Arnarsdóttir, Jasmín Erla Ingadóttir og Aníta Ýr Þorvaldsdóttir leiddu sóknarlínu Stjörnunnar og komu sér fljótt í færi. Hulda var afar nálægt því að skora eftir tíu mínútna leik, eftir frábæra sendingu Jasmínar, og Aníta var einnig búin að minna á sig áður en hún kom Stjörnunni yfir á 21. mínútu, með góðu skoti eftir hornspyrnu örvfætta EM-farans Sædísar Rúnar Heiðarsdóttur.

Þegar þarna var komið við sögu hafði lítið reynt á gríðarlega reynslumikið miðvarðapar Stjörnunnar sem stillti upp Gunnhildi Yrsu Jónsdóttur, nú fyrrverandi landsliðskonu, í miðri vörninni með Málfríði Ernu Sigurðardóttur. Það breyttist fljótt.

Nýjasta fyrrverandi landsliðskonan, Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir, var í stöðu miðvarðar í dag.Vísir/Hulda Margrét

Aldís María nýtti ekki gjöfina

Murielle Tiernan hafði reyndar rétt fyrir mark Anítu átt skalla rétt yfir mark Stjörnunnar, og eftir markið fékk Aldís María Jóhannsdóttir svo tvö frábær tækifæri til að jafna metin fyrir Stólana.

Aldís María, sem skoraði einmitt tvennu í 4-1 sigrinum gegn ÍBV fyrir viku, fékk fyrst stungusendingu frá Murielle og náði til boltans á sama tíma og Auður Sveinbjörnsdóttir Scheving, sem kom út úr marki Stjörnunnar. Boltinn hrökk í átt að endalínunni þar sem Aldís náði aftur til hans en skalli hennar fór ekki á markið.

Seinna færi Aldísar var hins vegar algjört dauðafæri, eftir að Auður hafði óvart sent boltann á Murielle í vítateig Stjörnunnar, en Aldís hitti boltann einfaldlega afar illa. Leikurinn róaðist síðasta korterið fram að hálfleik og heimakonur gátu prísað sig sælar að vera 1-0 yfir í hléi, á meðan Stólarnir hörmuðu færin sem fóru í súginn og meiðsli Beatriz Salas, annars af nýju spænsku leikmönnunum, sem varð að fara meidd af velli.

Þrjár meiddar af velli

Tindastóll þurfti alls að gera þrjár skiptingar í leiknum vegna meiðsla leikmanna og voru þau alvarlegustu líklega þegar Bergljót Ásta Pétursdóttir meiddist rétt fyrir sigurmark Sædísar, en hún gæti hafa slitið krossband í hné.

Marta Vives fór einnig meidd af velli á 59. mínútu og við það breyttist allt skipulag Tindastóls, sem fór í þriggja manna vörn með góðum árangri. Murielle átti strax skalla í þverslá eftir frábæra fyrirgjöf Aldísar Maríu, sem sjálf hefði átt að geta skorað skömmu áður, og Murielle jafnaði svo metin afar verðskuldað eftir að hafa ítrekað komið liðsfélögum og sjálfri sér í hörkufæri.

Stjarnan gerði í kjölfarið fjórfalda skiptingu, og fimmti og síðasti varamaður liðsins kom svo inn á þegar um tíu mínútur voru til leiksloka.

Hvort að þessar skiptingar, eða meiðsli Bergljótar Ástu sem greinilega slógu Stólana, hafi haft úrslitaáhrif skal ósagt því sigurmark Sædísar var einfaldlega úr glæsiskoti sem kannski var lítið hægt að gera við.

Sædís Rún Heiðarsdóttir bar fyrirliðabandið á EM U19-landsliða og mætti svo aftur í Bestu deildina og skoraði sigurmark gegn Tindastóli í dag.Vísir/Getty

Sædís: „Held að ég hafi skuldað þetta“

„Þetta eru mjög mikilvæg þrjú stig fyrir okkur,“ sagði Sædís Rún, hetja Stjörnunnar, eftir leik.

„Þetta var mjög kaflaskiptur leikur og við hefðum kannski getað verið búin að koma okkur í aðeins þægilegri stöðu þegar við fórum inn í hálfleik, en síðan kláruðum við þetta bara í lokin, sem er mjög sætt. Fyrri hálfleikurinn var fínn en við gátum gert betur í seinni,“ sagði Sædís.

Kristján Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar var ekkert að gera of mikið úr marki hennar eftir leik en talaði um að Stjarnan hefði einmitt viljað nýta sér það svæði sem opnaðist fyrir Sædísi.

„Ég held að ég hafi skuldað þetta,“ sagði Sædís og brosti. „En já, ég sá bara svæði þarna, ákvað að nýta það og lét bara vaða.“

Gengi Stjörnunnar fyrri hluta móts hefur verið slakt miðað við væntingar fyrir mót og sigurinn því enn kærkomnari en ella:

„Öll stig sem við getum tekið, tökum við. Það er bæði stutt upp og stutt niður, og ég er svakalega ánægð með þessi þrjú stig. Það er margt jákvætt sem við getum tekið út úr þessu en líka margt sem við þurfum að laga,“ sagði Sædís, ánægð með að vera byrjuð að spila í Bestu deildinni aðeins nokkrum dögum eftir að hafa verið í Belgíu á EM:

„Það er bara fínt. Alltaf gaman að spila, það er það sem ég vil gera. Þrjú stig og ég get ekki beðið um meira.“

Halldór Jón Sigurðsson er þjálfari Tindastóls.Vísir/Vilhelm

Donni: „Þetta var dýr leikur“

Halldór Jón Sigurðsson, eða Donni, þjálfari Tindstóls, var hryggur eftir leik. Ekki bara vegna taps í leik sem Tindastóll spilaði að mörgu leyti afar vel heldur einnig af öðrum sökum:

„Þetta var dýr leikur. Við misstum þrjá leikmenn í meiðsli, þar af einn örugglega í alvarleg meiðsli og við sendum henni bara kveðjur. Mér fannst það setja rosalega leiðinlegan svip á leikinn.

Mér fannst þetta annars góður leikur af okkar hálfu, við vera betra liðið og ekki verðskulda að tapa. Mér fannst við verðskulda að lágmarki stig, og í raun sigur, og ég er verulega svekktur fyrir hönd stelpnanna að við skyldum ekki ná því,“ sagði Donni.

„Við sköpuðum fullt af færum á móti Stjörnuliði sem er með mjög sterka, fyrrverandi landsliðsmenn og U19-landsliðsmenn. Hörkugóðu liði. Þær skora langflest mörkin sín úr föstum leikatriðum og það var gríðarlega svekkjandi að fá á sig mark þannig, því við vorum búin að leggja gríðarlega áherslu á það. Seinna markið þeirra var bara draumamark frá Sædísi. Ég er virkilega svekktur að fá ekki neitt út úr þessum leik.

Auðvitað riðlar það leik liðsins og hefur áhrif að þurfa að breyta vegna meiðsla, og svo aftur og svo í þriðja sinn. Við fengum samt færi, dauðafæri, og þetta er allt saman rosalega svekkjandi. Heildarframmistaðan var mjög góð og við reynum að byggja á því í næstu leikjum,“ sagði Donni.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira