Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Þar segir að lögreglu hafi borist þrjár tilkynningar um líkamsárásir í hverfi 101 í miðborginni. Ein þeirra átti sér stað á skemmtistað og var gerandi vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins. Þá áttu tvær líkamsárásir sér stað í íbúðahverfi í 101. Einnig var maður handtekinn vegna ofbeldis gagnvart opinberum starfsmanni við skyldustörf.
Þá átti sér stað líkamsárás í Múlunum og var gerandi vistaður í fangaklefa vegna rannsóknar málsins. Í sama hverfi barst tilkynning um að einhver hefði brotið rúðu á húsnæði.
Lögreglu bárust einnig tilkynningar um þjófnað og innbrot. Brotist var inn í bíl í miðborginni og bárust tilkynningar um þjófnað úr verslun í hverfi 103 og skemmtistað í miðborginni.
Grunsamlegar mannaferðir og partýhávaði
Lögreglan setti upp ölvunarpóst í miðbæ Hafnarfjarðar (hverfi 220) þar sem 120 ökumenn voru látnir blása í áfengismæli.
Af 120 ökumönnum voru tveir ökumenn undir refsimörkum, aðrir reyndust ekki undir áhrifum. Þessum tveim einstaklingum var gert að stöðva akstur.
Í Kópavogi og Breiðholti barst fjöldi tilkynninga um hávaða í heimahúsum og mikið af tilkynningum um grunsamlegar mannaferðir.
Lögreglu barst tilkynning um tvær brotnar rúður í húsnæði eftir grjótkast í Árbænum. Þá barst henni einnig tilkynning um innbrot í heimahúsi í hverfi 113.