Höfnin var þétt setin og hafa margir dorgað frá morgni til kvölds síðustu viku eða frá því að makríll fór að láta sjá sig. „Þetta er fjórði dagurinn í dag,“ sagði einn veiðimannanna. Annar sagðist ætla að elda makrílinn og gefa vinum sínum í kvöld.
Það veiddist nóg af makríl og veiðimenn voru á öllum aldri og frá öllum heimshornum. Hinir ungu gáfu hinum eldri ekkert eftir.
„Við komum um tólf og við erum búnir að veiða um það bil hundrað fiska. Við erum búnir að selja þá og fengum 5000 kall fyrir þetta,“ sögðu strákarnir Axel, Daníel og Jóhann.
Þeir ætla að mæta aftur á morgun að veiða og selja. Annar strákur að nafni Darri segir að trixið sé að vera þolinmóður og bíða en enginn af strákunum er sérstaklega hrifinn af bragðinu.
„Mér finnst hann ekkert sérstakur. Ég er ekki mikill fiskakall en ég elska að veiða.“