Strendur Mógadisjú, höfuðborgar Sómalíu, voru áður vel sóttar af ferðamönnum sem gerðu sér glaðan dag í sólinni. Nú sækir ekkert á ströndina nema plast, glerdósir, umbúðir, úrgangur og annað rusl.
Hópur sjálfboðaliða, sem samanstendur aðallega af háskólanemum hefur undanfarið tekið málin í sínar hendur og hreinsað strendurnar.
„Við höfum verið að hreinsa strendurnar í 87 vikur. Þetta er sjálfboðaliðastarf stúdenta, háskólakennara og annarra sómalískra þátttakenda. Ein ástæða þess að þetta unga fólk býður sig fram í þetta frábæra starf er sú að það gerir sér grein fyrir því að þetta land tilheyrir engum nema því sjálfu,“ segir sjálfboðaliðinn Maama Ugaaso.
Tiltektin hefur þegar skilað árangri þar sem nú sést í sand í fyrsta sinn í langan tíma. Skipuleggjandi segir að hingað til hafi tvö þúsund tonn af rusli verið tekin af svæðinu.
„Ég er afar stoltur af þessu unga fólki sem hefur boðið sig fram til að hreinsa strendurnar. Sem sjómenn förum við fram á að stjórnvöld styðji þetta framtak þar sem það er afar mikilvægt að tryggja heilbrigði lifandi sjávardýra og styðja við ferðaþjónustu,“ segir Hassan Mohamed sjómaður.