Samkvæmt breytingunni verða stærri svæði innan núverandi útivistarsvæðis skilgreind sem leik-, íþrótta- og dvalarsvæði. Tillagan var auglýst frá 15. júní til 27. júlí en engar athugasemdir bárust.
Borgarráð samþykkti fyrr á árinu að fela umhverfis- og skipulagssviði að vinna tillögu að breyttu skipulagi til að greiða fyrir byggingu sparkvallar eða battvallar á Landakotstúni. Áformin hafa þó verið uppi frá 2021 en íbúaráð Vesturbæjar og skólastjóri Landakotsskóla höfðu kallað eftir bættri leikaðstöðu á svæðinu.
Samkvæmt umfjöllun Morgunblaðsins á kaþólska kirkjan Landakotstún en biskup kirkjunnar gaf leyfi fyrir framkvæmdinni. Frumkostnaðaráætlun frá 2021 hljóðaði upp á 88 milljónir króna.