Íslenski boltinn

Emil um endur­komuna: Hafði alltaf trú á sjálfum mér

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Emil fagnar einu af mörkum sumarsins.
Emil fagnar einu af mörkum sumarsins. Vísir/Diego

Sóknarmaðurinn Emil Atlason hafði alltaf trú á því að hann kæmi til baka eftir ítrekuð meiðsli. Hann blómstrar nú í Bestu deildinni í knattspyrnu og er með sjálfstraustið í botni.

Emil hefur farið mikinn með Stjörnunni á leiktíðinni og skorað 9 mörk í aðeins 13 deildarleikjum.

„Mér líður mjög vel inn á vellinum, góð liðsheild og ef mér líður vel þá spila ég vel.“

Stjörnumenn eru komnir upp í 4. sæti og farnir að blanda sér í baráttuna um Evrópu. Eiga mörk Emils stóran þátt í því.

„Jökull (Elísabetarson) tekur við og hann er með sínar hugmyndir. Það gengur mjög vel, Jölli er búinn að koma frábærlega inn í þetta. Eins og nútímafótbolti er, fótboltinn er alltaf að breytast á hverju ári og hann er með sína hugmyndafræði í þessu. Það er að skila sér.“

Fréttin heldur áfram eftir myndbandið.

Emil hefur verið gríðarlega óheppinn með meiðsli á ferli sínum og meiddist illa á síðasta ári.

„Ég lagði hart að mér að koma aftur til baka. Hafði alltaf trú á sjálfum mér og gæti sýnt hvað ég get.“

Stjarnan vann Fylki 4-0 í síðustu umferð Bestu deildarinnar. Emil skoraði þrennu í leiknum, eða hvað? Hann fékk aðeins tvö mörk skráð sig þar sem eitt var skráð sem sjálfsmark á Ólaf Kristófer Helgason, markvörð Fylkis.

„Hann fór í slánna og svo aftur í hann en markaskorarinn í mér er ósáttur að einhverju leyti.“

Rætt var um frammistöðu Emils í síðasta þætti Stúkunnar á Stöð 2 Sport og voru menn á því að hann væri besti framherji deildarinnar um þessar mundir.

„Frábært að heyra svona hluti frá sérfræðingunum, það er mjög gaman,“ sagði Emil áður en hann var spurður að því hvað hann ætlaði að skora mörg mörk í sumar.

„Það kemur í ljós,“ svaraði framherjinn sposkur á svip en hann þarf enn tvö mörk til að jafna árangur síðasta tímabils.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×