Austurríska ríkið keypti húsið, sem stendur í Braunau am Inn í norðurhluta landsins, árið 2016 til þess að koma í veg fyrir að aðdáendur Hitlers færu þangað í pílagrímsferðir.
Í frétt Guardian um málið segir að mikill ágreiningur hafi verið um hvað ætti að gera við húsið og að nú hafi loksins verið ákveðið að breyta húsinu í lögreglustöð þar sem mannréttindanámskeið fyrir lögregluþjóna verða haldin.
Viðraði svipaða hugmynd í blaðaviðtali árið 1939
Líkt og búast má við í öllum málum tengdum Hitler í Austurríki hafa komið upp gagnrýnisraddir í garð stjórnvalda vegna áformanna. Günter Schwaiger, austurrískur leikstjóri, vinnur að gerð heimildarmyndar um Hitler og segir að í henni komi fram gögn sem sýni að Hitler hefði líkað við áformin.
Þar vísar hann til blaðagreinar í bæjarriti frá árinu 1939 þar sem kemur fram að Hitler hafi viljað að fæðingarstaður hans yrði miðstöð stjórnsýslu á svæðinu. Með því að breyta húsinu í lögreglustöð sé verið að uppfylla ósk Hitlers, sem sé auðvitað ekki gott.