Fótbolti

Hætta við að selja Man United og bíða eftir billjónaboði

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Joel og Avram Glazer virðast vera hættir við að selja Manchester United í bili.
Joel og Avram Glazer virðast vera hættir við að selja Manchester United í bili. EPA/JUSTIN LANE

Svo virðist sem Glazer-fjölskyldan, eigendur enska úrvalsdeildarfélagsins Manchester United, sé hætt við að selja félagið í bili og vilji fá umtalsvert meira fyrir félagið en áður var talið.

Glazer-fjölskyldan sagði frá því í nóvember á síðasta ári að hún væri reiðubúin að selja félagið og að hlustað yrði á tilboð. Tvö tilboð bárust sem hægt var að taka mark á þar sem Sjeik Jassim bin Hamad Al Thani bauðst til að kaupa félagið í heild sinni og Sir Jim Ratcliffe vildi verða meirihlutaeigandi.

Báðir aðilar fóru í gegnum margar umferðir af tilboðum, en fátt var um svör frá Glazer-fjölskyldunni um hvar þeir stæðu í ferlinu.

Nú greinir breski miðillinn The Daili Mail hins vegar frá því að Glazer-fjölskyldan sé hætt við að selja félagið, að minnsta kosti í bili.

Ástæða þess er að Glazer-fjölskyldan ætlar sér að reyna aftur árið 2025 að selja félagið samkvæmt heimildarmönnum The Daily Mail. Þá vonast Glazer-fjölskyldan eftir því að efnahag- og umhverfisþættir muni laða fleiri mögulega kaupendur að.

Glazer-fjölskyldan vonast einnig eftir því að fá hærra verð fyrir United. Talið er að Sjeik Jassim bin Hamad Al Thani hafi boðið um fimm milljaðra punda í félagið, en Glazer-fjölskyldan telur sig geta fengið frá sjö til tíu milljarða punda árið 2025. Tíu milljarðar punda samsvara tæpum 1,7 billjón króna, eða 1.647 milljörðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×