Í ákæru á hendur manninum, sem Vísir hefur undir höndum, segir að maðurinn hafi í desember árið 2019 hlaupið á eftir drengnum inn í svefnherbergi, læst dyrum, og gegn vilja drengsins snúið hann niður í hjónarúm herbergisins og þar bundið hann á höndum og fótum, fyrir aftan bak, sest klofvega yfir hann, þar sem hann lá á maganum og kitlað hann, þrátt fyrir að drengurinn bæði hann margsinnis um að hætta.
Maðurinn hafi ekki látið af háttsemi sinni fyrr en drengurinn náði að snúa sér við og hrækja í andlit hans.
Í ákvæði barnaverndarlaga, sem saksóknari telur háttsemi mannsins falla undir, segir að hver sá sem beitir barn andlegum eða líkamlegum refsingum, hótunum eða ógnunum eða sýnir af sér aðra vanvirðandi háttsemi gagnvart barni skuli sæta sektum eða fangelsi allt að þremur árum.
Saksóknari krefst þess að maðurinn verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Þá er þess krafist fyrir hönd drengsins að maðurinn verði dæmdur til að greiða honum eina milljón króna í miskabætur.
Veistu meira um málið? Vísir tekur við öllum ábendingum á frettir@stod2.is. Fullum trúnaði er heitið.