Þingmenn stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu eru ekki allir sammála um það hvert eigi að vera næsta skref Bjarna Benediktssonar en hann sagði af sér sem fjármala- og efnahagsráðherra í gær.
Um helgina verður haldin ríkisráðsfundur þar sem verður ljóst hver tekur við embætti hans en því hefur verið velt fram að hann og Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir utanríkisráðherra skipti um ráðherrastól. Þá hefur því einnig verið velt fram hvort að Lilja Dögg Alfreðsdóttir viðskipta- og menningarráðherra taki við embætti hans eða jafnvel hvort að Bjarni skipti við Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra.
„Ég held að það sjái það allir að þegar ráðherra í þessari stöðu stígur fram og segist ætla að axla ábyrgð með því að stíga út úr ráðuneyti þá liggur í orðanna hljóðan að hann er stíga út úr ríkisstjórn. Annað er bókstaflega mjög ný og hugmyndarík túlkun á því að axla ábyrgð á þeirri stöðu sem hann er í núna,“ sagði Hanna Katrín Friðriksson, þingkona Viðreisnar, á þinginu í dag.
Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, tók í sama streng.
„Mér finnst mjög undarlegt að hann færist úr einu ráðuneytinu í annað. Ég tel þetta mjög alvarlegt mál út frá því að maður var hér á Austurvelli að mótmæla á sínum tíma út af bankahruninu. Mér finnst við á þessum fimmtán árum frá hruninu ekki hafa lært neitt og það finnst mér grafalvarlegt mál.“
Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, talaði á svipuðum nótum.
„Þá finnst mér þau svolítið hafa þjóðina að fíflum ef þetta snýst bara allt um það að skipta um skrifstofu. Ég verð að viðurkenna það.“
Slæmt að ætla í annað ráðuneyti
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, sagði það ekki gott að Bjarni færi í annað ráðuneyti.
„Mér finnst það mjög slæmt. Ég las einhverja lýsingu að þetta væri eins og að drukkinn maður væri stoppaður á bíl og hann hoppaði upp í næsta bíl og héldi áfram að keyra. Þetta gengur ekki.“
„Þú getur ekki bæði átt kökuna og étið hana. Annað hvort axlarðu ábyrgð á misgjörðum þínum, og þá ert hægt að hrósa fyrir það og þá er það mikilvægt fordæmi, eða ekki. Annað hvort segirðu af þér ráðherradómi og víkur úr ríkisstjórn, axlar þannig ábyrgð eða þú ert ekki að gera það. Þannig horfi ég á það,“ bætti Jóhann Páll við.
Þau gagnrýna jafnframt framgöngu forsætisráðherra í Íslandsbankamálinu.
„Ég hefði kannski óskað eftir því að fyrirliðinn hefði einhver önnur orð um stöðu mála en aðdáunarorð til ráðherrans,“ sagði Hanna Katrín á meðan Jóhann Páll sagði framgöngu Katrínar dapurlega og að hann hefði orðið fyrir vonbrigðum með hana.
„Mér finnst þetta hörmung því það var alveg augljóst að þetta yrði efnisleg niðurstaða málsins,“ sagði Björn Leví. Það hefði verið ljóst allt frá því að opinn nefndarfundur fór fram með fjármálaráðherra fyrir einu og hálfu ári síðan.
Þingmaður Sjálfstæðisflokksins telur á sama tíma rétt að Bjarni taki nú við öðru ráðherraembætti.
„Já, ég tel rétt að hann geri það og mun styðja hann heilshugar ef hann gerir það. Ég held, eins og hann útskýrði sjálfur í gær, að honum er ókleift að sinna embætti fjármálaráðherra vegna þess álits sem liggur fyrir,“ sagði Teitur Björn Einarsson.
Bjarni nyti enn trausts þingmanna og ráðherra stjórnarflokkanna.