Körfubolti

NBA segir góðan mögu­leika á því spila NBA-leik á Berna­béu leik­vanginum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það yrði athyglisvert að sjá NBA leik fara fram á þessum velli í framtíðinni.
Það yrði athyglisvert að sjá NBA leik fara fram á þessum velli í framtíðinni. Getty/Soccrates

Mark Tatum, næstráðandi hjá NBA-deildinni, opnaði fyrir möguleikann á því að deildarleikur í NBA verði spilaður í framtíðinni á heimavelli fótboltaliðsins Real Madrid á Spáni.

NBA hefur spilað leiki í öðrum löndum en deildin hefur aftur á móti aldrei spilað NBA leik á opnum fótboltavelli.

Tatum talaði um þennan framtíðarmögulega eftir æfingaleik Real Madrid og Dallas Mavericks sem var spilaður WiZink Center höllinni í Madrid í vikunni.

WiZink Center tekur bara sautján þúsund manns í sæti en það komast 85 þúsund manns á fótboltaleiki á Bernabéu.

„Ég fékk tækifæri til að skoða nýja Bernabéu leikvanginn og það ótrúlegt að sjá hvað þeir hafa gert þar,“ sagði Mark Tatum sem er undirmaður Adam Silver.

„Ég sá hvernig þeir taka í burtu grasvöllinn og setja hann niður í geymslu. Þetta verður heimsklassa leikvangur. Ef aðstæðurnar eru réttar þá myndum við elska það að spila þarna,“ sagði Tatum.

„Það skiptir líka máli að þetta er stór markaður með mikla hefð alveg eins og í Frakklandi þar sem Ólympíuleikarnir fara fram á næsta ári. Við erum líka að skoða aðra markaði. Þýskaland, Spánn og Ítalía eru mikilvægir markaðir fyrir okkur,“ sagði Tatum.

Leikur Real Madrid og Dallas Mavericks var í fyrsta sinn sem NBA lið spilaði í Madrid síðan 2016 þegar Luka Doncic lék með Real Madrid í sigri á Oklahoma City Thunder. Doncic spilaði líka með Real á móti Boston Celtics árið á undan.

Þetta var áttundi leikurinn í höfuðborg Madrid og sá tuttugasti á Spáni. Það eru liðin 35 ár síðan NBA lið spilaði þar fyrst árið 1988.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×