Remy Martin var hetja liðsins þegar hann skoraði sigurkörfuna með tæpar tvær sekúndur eftir af leiknum, en varnarleg frammistaða hans vakti litla hrifningu.
„Augun mín sogast alltaf að Remy Martin því hann hreyfir sig varla í vörninni“ sagði Helgi Már Magnússon, sérfræðingur Subway Körfuboltakvölds.
„En það er ekkert bara hann, þetta eru aðrir líka. Fyrir mér er þetta ekki boðlegur varnarleikur fyrir lið sem ætlar að gera eitthvað.“
„Þetta mun aldrei ganga upp allt tímabilið, þó þeir vinni þennan leik“ bætti þáttastjórnandinn Stefán Árni Pálsson við.
„Maður hefur heyrt að það sé óánægja í Keflavík með varnarleikinn, hjá Remy Martin sérstaklega, hann sé ekki að reyna og nenni þessu ekki“ sagði svo Teitur Örlygsson.
Heildarsátt myndaðist meðal manna um slakan varnarleik Keflvíkinga áður en Helgi Már endaði umræðuna með því að opinbera áhyggjur sínar fyrir hönd Keflavíkur og bera liðið saman við Breiðablik sem Pétur Ingvarsson stýrði síðastliðin fimm ár áður en hann tók við af Hjalta Þór Vilhjálmssyni sem þjálfari Keflavíkur í sumar.
Innslagið allt má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.