Innlent

Tölu­vert tjón eftir elds­voða í Kópa­vogi

Viktor Örn Ásgeirsson skrifar
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins segir að erfiðlega hafi gengið að komast að eldinum.
Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins segir að erfiðlega hafi gengið að komast að eldinum. Vísir/Vilhelm

Eldsvoði varð í nýbyggingu við Digranesveg í Kópavogi laust fyrir klukkan hálf þrjú í nótt. Slökkvilið sendi þrjár stöðvar á vettvang en töluvert tjón hlaust af eldsvoðanum. Lögregla rannsakar eldsupptök.

Lárus Steindór Björnsson, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, segir í samtali við fréttastofu að vel hafi gengið að slökkva eldinn.

„Þetta var mjög þykkur reykur og þar af leiðandi erfitt að sjá – og hafði myndast töluverður hiti þarna. Lögreglan er að rannsaka í hverju kviknaði þarna en það hefur kviknað í einhvers konar einangrunarplasti og dóti í kjallara. Það er svolítið tjón á byggingunni vegna reyks og hita,“ segir Lárus.

Erfiðlega hafi gengið í fyrstu að komast að eldinum vegna reyksins og þá hafi eldsupptök verið tiltölulega langt inni í nýbyggingunni sjálfri. Eins og fyrr segir varð töluvert tjón af eldsvoðanum vegna reyks en enginn var inni í húsinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×