Netanjahú segist ætla að passa upp á að „morðingjarnir fái að borga fyrir fjöldamorðin.“ Hann biður almenna borgara á Gasa að færa sig um set, af norðurhluta svæðisins, enda hafi hermenn Ísraelshers aukið landhernað á Gasa.
„Ef Ísraelar vinna ekki stríðið í dag þá verður landið næsta fórnarlamb öxulveldisins illa. Stríðið á Gasa verður langt. Þetta er í annað sinn sem við berjumst fyrir sjálfstæði okkar. Við munum bjarga landinu. Við munum berjast í lofti og láði, við munum berjast og við munum sigra,“ sagði forsætisráðherrann meðal annars.
Netanjahú skaut föstum skotum á Recep Tayyip Erdógan forseta Tyrklands sem sakaði Ísraela um stríðsglæpi í dag. Netanjahú nafngreindi Erdógan ekki en sagði: Þú skalt ekki saka okkur um stríðsglæpi. Ef þú heldur að þú getir sakað hermenn okkar um stríðsglæpi er það bara hræsni. Við erum siðferðilegasti her í heimi.“
Hann bætir við að herinn reyni eftir fremsta megni að vernda almenna borgara en sakar Hamas um að nota fólk sem „mannlega skildi.“
Varnamálaráðherrann, Yoav Gallant, sagði hermenn vígbúast í norðri og suðri. Hann sagði einnig að stríðið yrði ekki stutt, það myndi standa lengi yfir. Hann sagði að mikil áhersla væri lögð á að koma gíslum heim.
Nýr fasi
Yoav Gallant, varnarmálaráðherra Ísrael, sagði í morgun að stríð Ísraela gegn Hamas væri í nýjum fasa. Eins og hann ítrekaði á blaðamannafundinum er herinn brátt tilbúinn til að verja Ísrael á öðrum vígstöðvum, eins og í norðri við landamæri Líbanon.
Samkvæmt heilbrigðisráðuneyti Gasastrandarinnar hafa rúmlega 7.700 manns fallið í árásum Ísraela og þar af mest konur og börn. AP fréttaveitan hefur eftir talsmanni ráðuneytisins að það að síma- og netsamband liggi niðri hafi líka lamað heilbrigðiskerfið, þar sem fólk geti ekki kallað eftir aðstoð.
John Kirby, talsmaður þjóðaröryggisráðs Hvíta hússins, sagði í vikunni að tölur frá Heilbrigðisráðuneyti Gasa, sem Hamas stýrir, væru ekki trúverðugar.