Eins og Vísir greindi frá fór fram stöðufundur Veðurstofunnar, Almannavarna og sérfræðinga Háskóla Íslands í morgun. Honum lauk klukkan 11:00. Þar voru ný gögn vegna jarðhræringa í Grindavík metin.
Aðgerðir almannavarna en ekki almennings
Haukur Hauksson, samskiptastjóri Veðurstofunnar, tekur fram í samtali við Vísi að um aðgerðir á vegum almannavarna verði um að ræða. Almenningur eigi ekki að halda af stað til Grindavíkur.
Í tilkynningu Veðurstofunnar segir að frá morgni gærdagsins hafi skjálftavirknin við kvikuganginn haldist nokkuð stöðug. Frá miðnætti í nótt hafi um þúsund skjálftar mælst og hafa þeir allir verið undir 3,0 að stærð. Mesta skjálftavirknin hefur verið frá miðju gangsins norðan við og suður undir Grindavík. Flestir skjálftanna eru á 3-5 km dýpi við neðri hluta kvikugangsins.
Þá segir í tilkynningunni að GPS mælingar sem nái yfir síðasta sólarhring sýni að hægt hafi á aflögun tengda kvikuganginum sem myndaðist á föstudag, 10. nóvember. Það bendi til þess að kvika sé að færa sig nær yfirborði, engin líkön hafa verið keyrð til að ákvarða dýpi hennar að svo stöddu.
Óvissa fari vaxandi eftir því sem líður á daginn
„Það var sameiginlegt mat fundarins út frá nýjustu gögnum að svigrúm sé til tímabundinna aðgerða á vegum almannavarna til að sækja nauðsynjar fyrir íbúa og sinna brýnum erindum í Grindavík og nágrenni,“ segir í tilkynningunni.
„Á meðan að á þeim aðgerðum stendur verður vakt svæðisins aukin og fylgst náið með merkjum um hvort að kvika komi upp. Það var mat vísindamanna eða ráðlegt væri að hefja þessar aðgerðir strax þar sem óvissa um framvindu atburðarins vex eftir því sem líður á daginn.“
Hjördís Guðmundsdóttir, upplýsingafulltrúi almannavarna, hvatti íbúa Grindavíkur í morgun til þess að vera róleg og bíða átekta.
„Hættan er enn til staðar og það er alltaf forgangsatriði við skipulagningu slíkrar aðgerðar. Eins erfitt og það er fyrir fólk að bíða þá þarf að gera þetta rétt og skipulega, og alltaf með öryggi í fyrirrúmi,“ sagði Hjördís og ítrekaði í morgun að þótt svo að niðurstaða liggi fyrir á fundinum þá myndu aðgerðir ekki hefjast í beinu framhaldi.
Fréttin hefur verið uppfærð þar sem áréttað er að um aðgerðir á vegum almannavarna sé um að ræða.