Körfubolti

Mynd af ný­liðunum í NBA setur netið á hliðina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Chet Holmgren og Victor Wembanyama á efstu hæðinni.
Chet Holmgren og Victor Wembanyama á efstu hæðinni. getty/Joshua Gateley

Mynd sem náðist af tveimur af bestu ungu leikmönnum NBA-deildarinnar í körfubolta saman hefur vakið gríðarlega athygli.

Nýliðarnir Chet Holmgren og Victor Wembanyama mættust í fyrsta sinn þegar Oklahoma City Thunder og San Antonio Spurs leiddu saman hesta sína í gær.

Holmgren og Wembanyama eru gríðarlega hávaxnir og voru því skiljanlega valdir til að berjast í uppkastinu. Og myndin af því hefur farið eins og eldur í sinu um veraldarvefinn.

Holmgren er 2,16 metrar á hæð og með 2,29 metra vænghaf. Það bliknar í samanburði við Wembanyama sem er 2,24 metrar á hæð og með vænghaf upp á 2,40 metra.

Þeir Holmgren og Wembanyama notuðu þessa löngu skanka til að berjast um uppkastið. Sá síðarnefndi vann þá baráttu en myndina af henni má sjá hér fyrir neðan.

Holmgren og félagar í OKC unnu hins vegar leikinn örugglega, 123-87. Holmgren var með níu stig, sjö fráköst og þrjár stoðsendingar. Wembanyama skoraði átta stig, tók fjórtán fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Wembanyama var valinn fyrstur í nýliðavalinu 2023 en Holmgren annar í nýliðavalinu í fyrra. Hann missti hins vegar af öllu síðasta tímabili vegna meiðsla.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×