Körfubolti

Fyrrum lið Call­oway ó­sátt með brott­hvarf hans

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jacob Calloway í leik með KB Peja frá Kósovó. Félagið er ekki sátt með hvernig hann yfirgaf landið.
Jacob Calloway í leik með KB Peja frá Kósovó. Félagið er ekki sátt með hvernig hann yfirgaf landið. KB Peja

Körfuknattleiksfélagið KB Peja frá Kósovó er allt annað en sátt með Jacob Calloway, fyrrverandi leikmann Vals, en hann ku vera að semja við Íslandsmeistara Tindastóls. 

Á mánudag staðfestu Íslandsmeistararnir að Calloway væri að ganga í raðir félagsins. Þar segir að Stólarnir hafi samið við leikmanninn, sem er 2.03 metrar á hæð, og að hann komi frá liði KB Peja í Kósovó þar sem hann var með tæp 15 stig að meðaltali í leik.

Fyrr í dag ræddi Pavel Ermolinskij, þjálfari Tindastóls, komu Calloway á Krókinn. „Hann var að spila í Kósovó og líkaði ekki alveg nógu vel þar. Hann var að fara að losa sig undan samningi og hafði samband við mig til að láta mig vita af því. Við afgreiddum þetta bara mjög fljótt,“ sagði Pavel.

Það virðist þó sem Calloway hafi yfirgefið Kósovó án þess að gefa góða og gilda ástæðu fyrir. Svo segir allavega í yfirlýsingu KB Peja um málið. Þar segir:

„Jacob Calloway hefur óvænt yfirgefið KB Peja og Kósovó. Okkur skilst að lið frá Íslandi hafi aðstoðað hann við flutningana án þess að ná samkomulagi við félagið okkar sem gerir félagaskipti hans til þess félags ómöguleg að svo stöddu.“

Einnig segir þar að Calloway hafi átt í góðu sambandi við alla hjá félaginu, bæði samherja og aðra sem koma að félaginu. Að endingu segir svo að KB Peja muni fylgja laganna bókstaf þegar kemur að Calloway og hans málum.

Tindastóll mætir Þór í Þorlákshöfn á fimmtudaginn kemur, 30. nóvember. Ljóst er að Calloway verður ekki með Íslandsmeisturunum þá og ef marka má færslu KB Peja í dag er alls óvíst hvenær og hvort hann fái að spila hér á landi á næstunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×