Sport

Snæ­fríður Sól sjötta inn í undan­úr­slitin á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snæfríður Sól Jórunnardóttir synti vel í morgun.
Snæfríður Sól Jórunnardóttir synti vel í morgun. SSÍ

Snæfríður Sól Jórunnardóttir tryggði sér í morgun sæti í undanúrslitum á Evrópumeistaramótinu í 25 metra laug í Otopeni í Rúmeníu.

Snæfríður Sól náði sjötta besta tímanum í undanrásum þegar hún synti 100 metra skriðsund á tímanum 53,33 sekúndum sem er besti tími hennar á árinu.

Snæfríður á Íslandsmetið sjálf en það er sund upp á 53,19 sekúndur. Hún keppir aftur í kvöld í undanúrslitunum.

Hún er þriðji íslenski sundmaðurinn sem kemst í undanúrslitin á mótinu en í gær syntu Anton Sveinn McKee og Snorri Dagur Einarsson báðir í undanúrslitum í 100 metra bringusundi.

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir synti einnig 100 metra skriðsund á tímanum 55,05 sekúndum og er það besti tími hennar á árinu en hún varð í 28. sæti.

Birnir Freyr Hálfdánarson synti 200 metra fjórsund á 2:00.91 mínútum og endaði í 24. sæti en það er örlítið frá hans besta tíma. Næsta sund hjá Birni Frey er 100 metra fjórsund á laugardaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×