Anton Sveinn endaði annar í sínum undanriðli eftir að leiða nærri allan tímann. Á endanum var hann aðeins sekúndubrotum á eftir Amo Kamminga frá Hollandi. Kamminga synti á 2:04,59 á meðan Anton Sveinn synti á 2:04,67 mínútum.
Í hinum undanriðlinum vann Casper Carbeau, einnig frá Hollandi, en hann synti á 2:03,34 mínútum. Anton Sveinn var því þriðji og komst örugglega í úrslit.
Best á Anton Sveinn 2:01,65 mínútur í 200 metra bringusundi en það er Íslandsmet í greininni. Syndi hann þannig í úrslitum á morgun eru allar líkur á að hann standi uppi sem Evrópumeistari.
Úrslitasundið fer fram klukkan 16.19 að íslenskum tíma á morgun.