Sport

Kjarnorkukrakkinn sem gæti drottnað yfir pílukastinu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Luke Littler lítur kannski ekki út fyrir að vera sextán ára en er það samt.
Luke Littler lítur kannski ekki út fyrir að vera sextán ára en er það samt.

Píluáhugafólk ætti að leggja nafn Lukes Littler á minnið. Þessi sextán ára strákur tekur þátt á HM sem hefst í kvöld.

Littler, sem er fæddur í janúar 2007, þykir gríðarlega efnilegur spilari og pílusérfræðingurinn Guðni Þorsteinn Guðjónsson segir að hann geti látið að sér kveða á stærsta sviðinu.

„Hann er nýkrýndur heimsmeistari unglinga. Gefum honum nokkur ár, ég held að hann sé að fara að taka yfir,“ sagði Guðni.

„Hann er ekkert eðlilega góður. Hann hræðist ekki. Hann kemur inn í þetta mót eins og Josh Rock í fyrra,“ bætti Guðni við. Umræddur Rock komst í sextán manna úrslit á HM á síðasta ári.

Littler mætir Christian Kist frá Hollandi í 1. umferð á miðvikudaginn og svo Andrew Gilding í næstu umferð ef hann vinnur.

„Hann gæti þess vegna farið í sextán manna úrslit,“ sagði Guðni um möguleika Littlers sem notast við gælunafnið The Nuke, eða Kjarnorkusprengjan.

Guðni segir að fólk ætti einnig að fylgjast með Gian van Veen, 21 árs Hollendingi.

„Þeir Littler mættust á HM unglinga um daginn. Hann er svakalega góður og hefur staðið sig vel á mótaröðinni í ár,“ sagði Guðni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×