Eldgosið hófst á ellefta tímanum í gærkvöldi en dregið hefur úr virkninni síðan í nótt. Þrátt fyrir það er þetta eldgos mun öflugra en síðustu þrjú á Reykjanesskaga, að sögn Hjördísar Guðmundsdóttur, samskiptastjóra almannavarna. Hún sagði í samtali við Bítið á Bylgjunni í morgun að gosið hafi ekki komið almannavörnum á óvart.
„Þetta er ekki eitthvað sem kom okkur í almannavörnum á óvart, það er ekki þannig, eins og stóð einhvers staðar, að það hafi hafist skyndilega. Þetta er eitthvað sem við höfum verið að búast frekar við en ekki. Ekki síst eftir síðustu daga. Skyndilega kemur það upp en það kemur engum á óvart,“ segir Hjördís.
Hún segir að blessunarlega sé sprungan ekki að teygja sig til suðurs í átt að Grindavík. Hins vegar þurfi viðbragðsaðilar að fylgjast vel með Grindavíkurvegi.
„Hraunið er kannski að hóta því að fara í þá áttina. En það er fylgst áfram með þessu. Við erum öllu vön við Íslendingar, hvað þá Grindvíkingar,“ segir Hjördís.
Hún segir gosið ekki neitt túristagos og biðlar til fólks að reyna ekki að komast að gosinu.
„Það er ástæða fyrir því að við erum að biðja fólk um að fara ekki á staðinn. Þetta er stórt eldgos og það er gas sem er hættulegt. Þetta eru ekki bara við að vera úlfur úlfur heldur er þetta hættulegt,“ segir Hjördís.