Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Veðurstofunnar.
„Þróun gossins svipar til eldgosa við Fagradalsfjall þar sem gossprungurnar eru byrjaðar að draga sig saman og mynda stök gosop. Á þessum tímapunkti eru um fimm gosop sem eru dreifð eftir upphaflegu sprungunni,“ segir í tilkynningunni.
Síðast var farið í mælingaflug klukkan fjögur í nótt og er næsta ferð klukkan eitt í dag. Verið er að vinna nýtt hættumatskort og verður það gefið út síðar í dag.
Gosmökkurinn berst undan vestan og norðvestan átt. Gasmengunar gæti því orðið vart í Vestmannaeyjum í dag en ekki annars staðar í byggð. Samkvæmt veðurspá gæti gasmengunar orðið vart á höfuðborgarsvæðinu seint í nótt eða í fyrramálið.