Sport

Lang­þráður draumur Páls Sæ­vars loksins að rætast

Aron Guðmundsson skrifar
Við samgleðjumst Páli Sævari sem er í þann mund að fara upplifa einn af draumum sínum. 
Við samgleðjumst Páli Sævari sem er í þann mund að fara upplifa einn af draumum sínum.  Stöð 2 Skjáskot

Gamall draumur út­­varps­­mannsins og vallar­kynnisins góð­kunna, Páls Sæ­vars Guð­jóns­­sonar, mun rætast í kvöld er hann verður, á­­samt góðum hópi Ís­­lendinga, við­staddur spennandi keppnis­­dag á heims­­meistara­­mótinu í pílu­kasti.

Þrjátíu og tveggja manna úr­slitum mótsins lýkur í dag og sextán manna úr­slitin hefjast strax í kvöld. Þar er viður­eignar fyrrum heims­meistaranna Stephen Bunting og Michael Van Gerwen beðið með mikilli eftir­væntingu. Þá munu fleiri kunnug­leg nöfn stíga inn á keppnis­sviðið fyrir framan Pál Sæ­var og fleiri Ís­lendinga.

„Þetta er gamall draumur sem er að rætast núna,“ segir Páll Sævar í samtali við Vísi. „Loksins lét ég verða að því að fara til London og vera við­staddur í höllinni í Ally Pally að fylgjast með heims­meistara­mótinu. Ég er búinn að fylgjast með þessu móti síðan 2008. Þetta er skemmti­legasti í­þrótta­við­burður sem maður horfir á.

Það að vera í höllinni í kvöld og sjá kepp­endur, sem eru alls með sex heims­meistara­titla á bakinu, er náttúru­lega al­gjör­lega galið at­riði.“

Páll Sæ­var mun sjá nokkra af sínum eftir­lætis pílu­kösturum spila í kvöld.

„Það er gamall draumur hjá mér að upp­lifa í eigin per­sónu að horfa á Gary Ander­son í eigin per­sónu spila. Hann er einn skemmti­legasti pílu­kastari í heimi. Alltaf í góðu skapi.“

Páll Sævar er sérstaklega spenntur fyrir því að sjá Gary Anderson í kvöldVísir/Getty

„Svo hlakkar manni náttúru­lega til að horfa á Michael van Gerwen og ríkjandi heims­meistarann Michael Smith leika listir sínar. En ég hef á­hyggjur af heims­meistaranum Smith. Hann er ekki búinn að vera í nægi­lega góðu standi til þessa.

Þetta mót hefur ein­hvern vegin snúist alveg á hvolf. Gerwyn Price er farinn heim, sömu­leiðis Peter Wrig­ht og fleiri ó­vænt úr­slit munu eiga sér stað. Ég er sann­færður um það. Ég hef mestar á­hyggjur af Michael Smith fyrir viður­eignir kvöldsins.“

Verða áberandi í höllinni

Og Páll Sæ­var er sann­færður um að Ís­lendingarnir muni taka yfir höllina í kvöld.

„Þetta er tuttugu og tveggja manna hópur og at­vikaðist þannig að ég fékk að­gang að tuttugu og tveimur miðum í júní fyrr á þessu ári. Það var rosa­leg efir­spurn á þeim miðum. Þetta er mest fólk úr Grinda­vík sem er í hópnum núna.“

Það má sjá alls konar furðuverur í Ally Pally á meðan á heimsmeistaramótinu í pílukasti stendurVísir/Getty

„Það er gaman að vera með þeim og náttúru­lega ýmis­legt gengið á hjá Grind­víkingum upp á síð­kastið. Þau eru í góðu skapi hér og öllum hlakkar gríðar­lega til að upp­lifa stemninguna í Ally Pally í kvöld.“

Hópurinn mun gera sér glaðan dag og verða á­berandi í höllinni, upp við keppnis­sviðið, í kvöld.

„Það er búið að sér­hanna jakka­föt á okkur fyrir þennan við­burð. Ég get alveg lofað þér því að við Ís­lendingarnir munum taka yfir höllina í kvöld.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×