Þeir reyni að sannfæra fólk um að gefa sér kortanúmer á samfélagsmiðlinum Facebook, en til þess hafa verið stofnaðar síður sem líta út eins og síða hjálparsveitarinnar.
Þetta kemur fram í Facebook-færslu Hjálparsveitarinnar í Kópavogi, en þar er tekið fram að vinningshafi úr gjafaleik hjálparsveitarinnar hafi enn ekki verið dreginn út, og þegar það verði gert muni viðkomandi sigurvegari vera beðinn um að koma á sölustað skátanna og vitja vinningsins.
„Hann þarf ekki að gefa okkur upp neinar persónuupplýsingar eða kortanúmer í gegnum netið,“ bendir hjálparsveitin á í færslu sinni.
Uppfært:
Fleiri björgunarsveitir hafa verið að lenda í öðru eins. Björgunarsveitin Sigurvon í Sandgerði greinir frá álíka máli á Facebook-síðu sinni.
„Borið hefur á því að einhverjir hrekkjalómar séu að tilkynna í okkar nafni að fólk hafi verið að vinna í leikjunum okkar,“ segir í tilkynningu Sigurvonar, en í henni kemur fram að þrír gerviaðgangar í nafni björgunarsveitarinnar séu að reyna að svíkja fólk.
„Við látum þetta þó ekki stoppa okkur og veðrum að sjálfsögðu með annan leik á morgun en biðjum fólk um að fara varlega í að klikka á einhverja linka. við munum hafa samband við vinningshafa.“